Ég man þegar ég smakkaði spínat lasagna á Gló í fyrsta skiptið. Ofan á þessu annars frábæra lasagna var mjög ríflegur skammtur af grænu pestói sem var eitthvað það allra dásamlegasta og bragðbesta pestó sem ég hef smakkað. Ég reyndi eins og ég gat að kryfja bragðið og innihaldið í huganum (eins og ég geri alltaf ef ég fæ eitthvað sem mér finnst gott), en það var eitthvað bragð þarna sem ég gat ekki alveg borið kennsl á.
Seinna þegar ég var að leita á vefnum af hráfæði pestó rambaði ég á uppskrift frá Sollu, kennd við Gló og Grænan kost, og ég áttaði mig strax á því að þetta væri pestóið góða. Innihaldið sem ég hafði ekki borið kennsl á var næringarger, sem fyrir þá sem ekki vita er algent bragðefni í vegan mat og gefur honum mjög mikið umami – ásamt því að innihalda B12. Ég mæli sterklega með því að fjárfesta í dós af næringargeri, það passar við næstum allt og er svo gott að það er hægt að skófla því í sig eintómt með skeið.
Hér er upprunalega uppskriftin hennar Sollu, grænkerasnillings: https://hringbraut.frettabladid.is/frettir-pistlar/uppskriftir-fra-sollu-i-glo/
Mín útgáfa er örlítið öðruvísi
Vegan pestó
Ingredients
- 1 búnkt Basillika (eða ein 50 gr pakkning) má einnig nota blöndu af steinselju, basilliku, kóríander, spínati, ruccola eða öðru
- 1/2 geiri hvítlaukur sneiddur
- 1 handfylli pekanhnetur
- 1 daðla smátt skorin
- 1 msk næringarger
- 1/2-1 msk sítrónu eða lime safi
- 3/4 dl ólífuolía eða önnur olía
- 1/2-1 tsk salt smakkið til
Instructions
- Blandið öllu saman í litlum blandara eða stóru morteli. Smakkið til með salti og sítrónusafa. Geymist í ísskap í 1-2 vikur.