Þessi mexíkóska kjúklingasúpa, er eins og ég best veit, ekkert svo mexíkósk. Ég hef að minnstakosti ekki fundið nein ummerki um hana í mexíkóskum uppskriftum og hráefnin í henni eru ekkert sérlega mexíkósk. Hún ætti því kannski bara að heita “Íslensk kjúklingasúpa undir mexíkóskum áhrifum”. En eitt er víst, hún er afskaplega bragðgóð og seðjandi, sérstaklega á vetrardögum. Hér er mín útgáfa af þessari sívinsælu súpu okkar Íslendinga.
Mexíkósk kjúklingasúpa
Uppskriftin hentar 4 sem forréttur eða 2 sem aðalréttur
Ingredients
- 1 blaðlaukur
- 1 paprika
- 150 gr rjómaostur hreinn
- 1-2 tsk kúmín malað
- 1 tsk karrý
- 1-2 geirar hvítlaukur
- 1 dós hakkaðir tómatar
- 4 msk heinz chili sósa
- 4-500 ml kjúklingasoð (eða vatn + 1/2 teningur af kjúklingakrafti)
- 3-400 gr rifinn eldaður kjúklingur eða smátt skorinn hrár kjúklingur
Meðlæti
- avocado
- ferskt kóríander
- nachos
- rifinn ostur
- sýrður rjómi
Instructions
- Skerið blaðlaukinn og paprikuna og steikið í olíu eða smjöri í stórum potti við meðalhita, þar til grænmetið er orðið mjúkt og laukurinn aðeins byrjaður að brúnast 6-8 mín.
- Bætið kryddinu út í ásamt smátt skornum hvítlauki og steikið í 1 mínútu, hrærið vel í á meðan. Bætið svo rjómaostinum út í og hrærið vel.
- Bætið svo chili sósunni og hökkuðu tómötunum ásamt soðinu út í og látið suðuna koma upp.
- Sjóðið súpuna við vægan hita í 15-20 mínútur. Bætið smátt skornum hráum kjúklingi út í seinustu 5 mínúturnar (og passið að súpan sjóði í amk 5 mínútur) eða eldaða kjúklingnum síðustu mínútuna. Smakkið súpuna til með salti og pipri.
- Berið fram með skornu avókadó, nachos, sýrðum rjóma, rifnum osti og fersku kóríander.