Ég veit, það er alltaf frekar djarft að varpa því fram að eitthvað sé “best”. En þessi kladdkökuuppskrift er sú besta af mjög mörg sem ég hef prófað og þróað. Eftir að ég smakkaði frosnu kladdkökuna frá Frödinge kolféll ég fyrir kladdkökum. Ég fann samt enga uppskrift sem var nógu svipuð henni, þannig að ég fór í það verkefni að þróa mína eigin.
Uppskriftin sem fylgir hér fyrir neðan er útkoman úr þrotlausri tilraunastarfsemi og leit að rétta jafnvæginu í bragði og réttu áferðinni. Ég mæli sérstaklega með þessari sem eftirrétt í matarboði. Það er mjög einfalt að búa kökuna til og tekur stutta stund að baka hana. Hún er líka einstaklega góð deginum eftir bökun – og það besta er að hún bragðast og lítur út fyrir að vera flóknari en hún er.
Vinsamlegast getið heimilda.
Besta kladdkakan
Ingredients
- 3 dl sykur
- 3 lítil egg
- 1 1/2 dl matarolía
- 1 1/2 tsk vanilludropar
- 1 2/3 dl hveiti Kornax
- 1 1/3 dl kakó
- 1 tsk salt
Flórsykur til að dreifa yfir
Instructions
- Hitið ofnin í 175°c
- Blandið eggjunum, sykrinum, olíunni og vanilludropunum saman í skál, þar til allt hefur blandast mjög vel. Bætið hveitinu, kakóinu, saltinu út í og hrærið rétt nóg til að allt hefur blandast.
- Hellið í smurt bökunarform, eða bökunarform klætt bökunarpappír. Ég nota 18x24cm ofnfast mót.
- Hér kemur það eina vandasama við að gera kladdköku. Það þarf að passa vel að ofbaka kökuna ekki. Bakið kökuna í ca 12-13 mínútur og fylgist vel með henni. Ef þið stingið í hana og deigið festist ekki í endunum, en festist í miðjunni, þá er hún tilbúin. Þetta tekur um 15 mínútur í mínum ofni.
- Kælið kökuna alveg áður en þið dustið flórsykrinum yfir og berið hana fram.